Nýting gagna fyrir grunnviðmið kolefnisspors vegna losunar frá verkstöðum
Um verkefnið
Markmið verkefnisins Nýting gagna fyrir grunnviðmið kolefnisspors vegna losunar frá verkstöðum er að leggja fram tillögur um uppfærð meðaltalsgildi fyrir fasa A4 og A5.
Við vottun bygginga safnast gögn um losun vegna framkvæmda. Þessi gögn eru að mestu notuð til að uppfylla reglur og skjalfestingu, en hafa hingað til ekki verið nýtt til að bæta nákvæmni grunnviðmiða.
Íslensku meðaltalsgildin sem gefin eru upp fyrir fasa A4 og A5 eru 19,79 kgCO₂-íg/m² og 42,5 kgCO₂-íg/m². Þessi gildi byggja á íslenskum lífsferilsgreiningum sem voru til staðar árið 2022 en þær voru ekki margar.
Í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð kemur fram að stefnt sé að því að draga úr losun frá A4 og A5 um 70% fyrir árið 2030. Uppfærð meðaltalsgildi um losun frá verkstöðum stuðla að því að ná þessum markmiðum – bæði í samhengi við skuldbindingar Íslands og einstakra verkefna.
Nákvæmari gögn gera ákvarðanatöku markvissari og auðvelda að greina hvar mest er unnt að draga úr losun. Slík vinna getur einnig orðið hvati til að bæta nákvæmni í öðrum fösum lífsferilsgreininga.

Verkefnið hlaut styrk úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði sem er fjármagnaður af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, félags- og húsnæðismálaráðuneyti og menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti.