Um verkefnið
CIRCON verkefnið (fullt nafn: Hringrásarhagkerfið í byggingum: vistvæn hönnun hringrásarbygginga) var framkvæmt af Grænni byggð í samvinnu við tvo pólska samstarfsaðila – systursamtök okkar í póllandi Polish Green Building Council og Sílesíska Tækniháskólann (the Silesian University of Technology).
Verkefnið stóð í 2 ár (01/04/2022-31/03/2024).
Yfirlit
Íbúum þéttbýlis fjölgar á heimsvísu, og þar af leiðandi eykst eftirspurn eftir húsnæði. Þetta þýðir vaxandi álag í byggingartengdri starfsemi og aukin myndun byggingar- og niðurrifsúrgangs. Þetta kallar á aðgerðir, því byggingar- og niðurrifsúrgangur er einn stærsti úrgangsstraumurinn í Evrópusambandinu og á Íslandi. Jafnvel þó endurheimtarhlutfall hans sé hátt, er mikið svigrúm til umbóta því endurheimt felst aðallega í landfyllingum og landmótun. Innleiðing á hringrásarhagkerfinu í byggingariðnaði er því nauðsynleg til að varðveita verðmæti byggingarefna og halda þeim á markaði eins lengi og hægt er. Þetta myndi leiða til minna magns byggingar- og niðurrifsúrgangs, en einnig til minni notkunar á nýju byggingarefni. Byggingarefnin eru ábyrg fyrir um helming af kolefnisspori íslenskra bygginga á líftíma þeirra.
Til þess þarf að þróa trausta og kerfisbundna þekkingu á hringrásarhagkerfinu í byggingariðnaðinum. Þess vegna var stefnt að því í CIRCON verkefninu að búa til hagnýtar leiðbeiningar, með áherslu á hönnun hringrásarbygginga, því allt hefst með skipulagi og hönnun. Þessar leiðbeiningar voru sérsniðnar að íslenskum og pólskum byggingariðnaði og þeim verður dreift meðal helstu hagsmunaaðila í geiranum. Þannig kynnum við fyrir lykilaðilum hönnun á byggingum sem eru langlífar, endingagóðar og sjálfbærar, og möguleiki er á endurnýtingu byggingarhluta eftir niðurrif.
Meginmarkmið
Verkefnið miðar að því að stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins í íslenskum og pólskum byggingariðnaði með því að:
1. Gera hagnýtar leiðbeiningar um innleiðingu hringrásarhagkerfisins í hönnun bygginga, sem taka sérstaklega mið af séríslenskum auðlinda- og landfræðilegum aðstæðum, en einnig með hliðstjón af íslenskum og pólskum markaðsþörfum og -einkennum.
2. Miðlun ofangreindra leiðbeininga meðal helstu hagsmunaaðila í byggingargeiranum.
CIRCON verkefnið nýtur góðs af 361.422 evra styrkjum frá Íslandi, Liechtenstein og Noregi í gegnum EES- og Noregsstyrki og samfjármögnun með ríkisstyrkjum Póllands. Samfjármögnun frá pólska ríkinu nemur 54.213 evrum.
Upplýsingar um styrki frá EES og Noregi
EES- og Noregsstyrkirnir eru framlag Íslands, Liechtenstein og Noregs í átt að grænni, samkeppnishæfri Evrópu án aðgreiningar.
Það eru tvö heildarmarkmið: að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi í Evrópu og að efla tvíhliða tengsl milli gjafalandanna og 15 ESB-ríkja í Mið- og Suður-Evrópu og Eystrasaltslöndunum. Styrktarríkin þrjú eru í nánu samstarfi við ESB í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Styrkirnir hafa lagt fram 3,3 milljarða evra með samfelldum styrkkerfum á árunum 1994 til 2014. Fyrir tímabilið 2014-2021 nema EES og Noregi styrkir 2,8 milljörðum evra.
Forgangsverkefni þessa tímabils eru:
#1 Nýsköpun, rannsóknir, menntun og samkeppnishæfni
#2 Félagsleg aðlögun, ungmennastarf og fátækt
#3 Umhverfi, orka, loftslagsbreytingar og lágkolefnishagkerfi
#4 Menning, borgaralegt samfélag, góðir stjórnarhættir og grundvallarréttindi
#5 Dóms- og innanríkismál
Hæfi til styrkja endurspeglar viðmiðin sem sett eru fyrir Samheldnisjóð ESB sem miða að aðildarlöndum þar sem vergar þjóðartekjur (GNI) á hvern íbúa eru minna en 90% af meðaltali ESB.
Styrkjakerfi EES og Noregs samanstendur af tveimur fjármálakerfum. EES-styrkirnir eru fjármagnaðir í sameiningu af Íslandi, Liechtenstein og Noregi, en framlög þeirra eru byggð á landsframleiðslu þeirra. Noregsstyrkir eru eingöngu fjármagnaðir af Noregi.
Frekari upplýsingar má finna á: https://eeagrants.org/
Upplýsingar um samfjármögnun með ríkisstyrkjum Póllands
Styrkur frá pólska ríkinu var veittur til verkefnisins innan áætlunarinnar: Umhverfi, orka og loftslagsbreytingar, áætlunarsvæði: loftslagsmál.